Thursday, January 19, 2012

"Þetta er sonur Jóns Bjarnasonar!"

Þegar Vesturbæjarlaugin er við hliðina á húsinu manns, fer maður oft í sund. Það er fátt betra en að sitja í heita pottinum, slaka á og hlusta á samtöl annarra. Ef heppnin er með í för verður maður jafnvel hluti af samtali.

Ég labba niður stigann og inn í klefa. Það eru mikil læti, heldri menn Vesturbæjarins hrópa og kalla. Þeir eru í leik. Við enda gangsins hafa þeir komið fyrir fótboltamarki í dúkkustærð og markverði og keppast um að skora með viðeigandi látum. Boltarnir eru einakrónur.

Það er eitt sem ég hef tekið eftir á sundferðum mínum víða um land. Gamlir karlar klæða sig mjög undarlega eftir sund. Þeir byrja á því að fara í bolinn sinn og því næst í sokkana, sem yfirleitt ná upp að hnjám. Þið reynið að sjá þetta fyrir ykkur stelpur.

En aftur að sundferðinni minni. Ég geng í átt að sturtunum, á andamsklæðunum og kem handklæðinu fyrir í þar til gerðu hólfi. Þegar ég sný mér við er ég innilokaður, tveir miðaldra karlmenn á adamsklæðunum standa á spjalli og taka ekki eftir því að ég þarf að komast fram hjá þeim. Frekar óþægilegt en reddast einhvern veginn, án þess að þeirra spjall truflist mikið.

Í sturtu, út í laug, syndi nokkrar ferðir og svo í pottinn. Þar byrjar fjörið. Ég sit bara og hlusta. Hef greinilega lent í pottinum með einhversskonar sundhóp, sem ég á erfitt að átta mig á. Það er alveg magnað hvað þau geta talað lengi um froskalappir. Ein konan í hópnum byrjar umræðuna; "Vitiði hvað ég fékk í jólagjöf? Froskalappir!!" Gleðin leyndi sér ekki og allur hópurinn ljómaði af spenningi og næstu 10 mínúturnar fóru í froskalappir. Allt í einu ríkur hópurinn upp úr og ég sit einn eftir, en ekki lengi. 

Nú fer að týnast ofan í annar hópur sem greinilega hittist á hverjum morgni í pottinum. "Nei, það er bara nýr meðlimur í pottinum", segir ein konan og á við mig. Hún varar mig við þeim og spyr hvort ég sé nokkuð viðkvæmur. Ég hélt nú ekki. Í þann mund arkar Jón Bjarnason út úr klefanum og þá er sko fussað í klefanum. Enn bætist í pottinn og í þetta skiptið er ég kynntur sem sonur Jóns Bjarnasonar og það er mikið hlegið. Eftir skamma stund kemur maður út á bakkann. "Nei, þarna er sáli!", segir einhver. Hann kemur að pottinum, stillir sér upp og tekur til máls; "Ég gleymdi vatninu." Fimmaurabrandari sem vekur mikla lukku, en eftir að hafa verið kynntur fyrir "syni Jóns Bjarnasonar" heldur hann áfram. "Kryddjurtin sem ég ætla að segja ykkur frá í dag heitir Basilikum og er mikið notuð við Miðjarðarhafið, sérstaklega á Ítalíu." Síðan fáum við örfyrirlestur um þessa merku plöntu. Mér skilst að sáli segi frá nýju kryddi á hverjum morgni.

Ég kveð og held í eimbaðið, síðasta stopp. Þar er undarleg stemming. Bekkurinn myndar einn stóran hring og það er þétt setið. Stemmingin er vandræðaleg, það veit enginn hvernig hann á að snúa sér án þess að stara á einhvern annan. Það er hreinlega ekki hægt og úr verður ágætis störukeppni.

Það er kominn tími til að halda upp úr, sem er svo sem ekki frásögu færandi, eða hvað? Ég get ekki annað en brosað þegar ég sé svona ca. fimmtugan kall með risa stóra bumbu þurrka sér með bleiku Latabæjarhandklæði. Á leiðinni að fataskáp nr. 62 verð ég aftur fyrir vandræðalegri hindrun. Fyrir mér stendur fullkæddur maður, ég á adamsklæðunum. Ég reyni að koma mér fram hjá honum en þá ákveður hann að arka af stað líka og ég klessi mér næstum því upp við hann. 
Kannski ég fari að taka baðsloppinn minn með í sund?

Monday, January 16, 2012

En Gísli, um hvað?

Kæru heimsborgarar, nær og fjær.
Eftir fjölmargar gönguferðir um stræti höfuðborgarinnar, vangaveltur um lífið og kvart og kvein samlanda minna varð Gísla ljóst að sennilega þyrfti hann að blogga.

En Gísli, um hvað?
Pólitík? - Já, ef mér dettur það í hug.
Mat? - Já, ef ég verð mjög svangur.
Hugsanaflækjur? - Já, ef þær eru skemmtilegar.
Eitthvað fyndið? - Já, ef ég rekst á eitthvað fyndið.
Kæra dagbók, í dag vaknaði ég klukkan 8 og fór í vinnuna eftir hádegi? - Nei.

En Gísli, verða öll bloggin í þriðju persónu?
Nei kæru heimsborgarar, nær og fjær. Svo sannarlega ekki.