Tuesday, December 11, 2012

Opið bréf til jólasveinanna

Grýla og Leppalúði
c/o Stekkjastaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottaskefill, Askasleikir, Hurðaskellir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur og Kertasníkir.
924 Íslensku óbyggðunum

Kæru jólasveinar.

Nú fer að styttast í að þið bræðurnir röltið til byggða allir sem einn til að gleðja lítil börn með fallegum litlum gjöfum í skóinn. Mig langaði bara aðeins að minna þig á tilganginn með þessum gjöfum þínum; að gleðja lítil börn og stytta biðina eftir jólunum. Ég hef nefninlega heyrt að stundum gleymið þið bræðurnir ykkur og gefið einu barni mandarínu en í næsta skó laumið þið iPod. Þá verða börnin leið og þessar litlu sætu gjafir eru ekki lengur fallnar til þess að gleðja heldur valda öfundsýki og láta sumum börnum líða illa. Svo er alveg rosalega erfitt fyrir mömmu og pabba að útskýra hvers vegna einn fær mandarínu en annar iPod. Hvernig finndist ykkur ef þið fenguð allir mandarínu en Gilitrutt fengi nýjan vélsleða í skóinn?

Ég veit að þið bræðurnir eruð ekki sammála um hvernig eigi að fara að þessu. Sumir ykkar fá nefninlega símtöl og bréf frá foreldrum sem óska eftir því að börnin sín fái eitthvað dýrt í skóinn og sumir meira að segja láta ykkur fá iPod til að lauma í skóinn, eða það hef ég allavega heyrt. Ég veit að það getur verið erfitt að hafa vit fyrir foreldrum sem vilja öllu ráða og hugsa bara um sig og sín börn og er alveg sama um alla hina. En ekki gleyma því, elsku jólasveinar, að ykkar hlutverk er ekki að gefa börnunum það sem þau langar mest að fá í öllum heimi-geiminum. Ef mamma og pabbi vilja að barnið sitt fái iPod, þá geta þau bara gefið það sjálf í jólagjöf, það er ekki ykkar hlutverk að dreyfa rándýru tæknidóti sem var ekki einu sinni til þegar þið fæddust.
Að lokum, ef ég hef ekki náð til ykkar nú þegar, þá vil ég orða þetta svona. Þessi hegðun ykkar að gefa sumum mandarínu og öðrum iPod, og vekja þannig upp öfundsýki og gera sum börn leið og jafnvel reið, jafnast nánast á við það þegar þið stáluð mat og drykk og skelltuð hurðum hér í gamla daga. Þið vitið betur elsku jólasveinar.

Virðingarfyllst,
Gísli Björgvin Gíslason

Ps. Mig langar í Strumpaópal í skóinn.