Sunday, February 19, 2012

Sjálfstæðisflokkurinn er fyrir sjálfstæðismenn


Svar við grein ristjóra sus.is, List er fyrir listunnendur.
________________________________________________________________________
Fyrir hverja er Sjálfstæðisflokkurinn? Þetta er einföld spurning sem auðvelt er að svara. Sjálfstæðisflokkurinn er fyrir þá sem unna frjálshyggju - frjálshyggjumenn. Hvernig getur þá verið, að allir skattgreiðendur, sama hvort þeir unni Sjálfstæðisflokknum eður ei, séu neyddir til að greiða ákveðnum frjálshyggjumönnum styrk?
Hver og einn einstaklingur á að hafa frelsi til að leita hamingjunnar á eigin vegum. Hann er frjáls gjörða sinna svo fremur sem hann skerðir ekki þetta sama frelsi annars einstaklings. Skerðing á frelsi hans er því ekkert annað en beiting á ofbeldi.
Af þessu leiðir að einstaklingur á að hafa frelsi til að velja hvaða hugmyndafræði hann unnir. Að skerða þetta frelsi hans er ofbeldi og það af hálfu ríkisins í tilfellinu um framlög til stjórmálaflokka. Ríkið tekur pening, sem harðvinnandi einstaklingar hafa unnið sér inn – ávöxt erfiðisvinnu sem krafðist orku, tíma og fyrirhöfn -, og hótar að viðurlögum verði beitt ef því er ekki afhent féið. Ríkið ákveður síðan hvaða stjórnmálamenn hljóti fé harðvinnandi einstaklinganna og hvaða stjórnmálamenn hljóti einfaldlega ekki neitt. Hinir sönnu neytendur stjórnmálanna og þeir sem öfluðu peninganna, sem eru nú í höndum útvalinna stjórnmálamanna, fá ekkert að segja.
Þannig að svarið við þeirri spurningu, sem borin var upp hér í byrjun, er ekki svo einfalt eftir allt saman. Ríkið hefur ákveðið að allir eigi að unna stjórnmálum og ríkið fær síðan að ákveða hvaða stjórmálaflokki þeir eigi að unna.
Og hvað með frelsi einstaklingsins til að velja hvaða stjórmálum hann unnir? Það skiptir bara engu máli.
Höfundur er ritsjóri gislibjo.blogspot.is

Monday, February 6, 2012

Íslendingar eru bölvaðir dónar!

Íslendingar eru bölvaðir dónar. Þeir segja t.d. "ég ætla að fá" en ekki "má ég fá" eða "get ég fengið", sbr. "can I have." Fullir Íslendingar eru ekkert skárri, þeir ætla ekki einu sinni að fá, tala yfirleitt bara í stikkorðum; Bjór! Tequila! Vodka í kók, ekki klaka! Síðan brosum við ekkert rosalega mikið og bjóðum bara góðan daginn af því að okkur er sagt að það sé almenn kurteisi.
Þegar ég kem heim frá útlöndum tekst mér alltaf að vera ekki bölvaður dóni í nokkra daga. Segi "Góðan daginn, má ég fá eina pylsu með öllu takk."

Íslendingar hafa enga rýmisgreind. Þeir eru nefninlega snillingar í því að vera fyrir hvorum öðrum. Þegar tvenn hjón með barnavagn og öskrandi börn (sem eru efni í heilt annað blaður) hittast fyrir framan morgunkornið í Bónus, þykir alveg sjálfsagt að stoppa bara þar og spjalla. Svo er náttúrulega argasti dónaskapur að smeygja sér á milli með kurteisislegu "ahemm, afsakið." Þá fær maður augnaráð. Það er heldur ekki séns að mæta Íslending úti á götu, ég tala nú ekki um í Kringlunni þegar það er lokadagur útsölu, án þess að hann labbi á mann. Rýmisgreind; núll. Einhvern veginn tekst okkur alltaf að fara í sömu áttina og vera fyrir, stoppa í miðjum gangvegi með bakið í umferðina og taka ekki einu sinni eftir öðru fólki. Af hverju ekki bara að brosa meira og horfa fram á við, en ekki niður í gólf?

Til að koma í veg fyrir allan misskilning skal tekið fram að undirritaður er ekkert skárri. Hann pirrar sig yfir fólki sem stoppar gangveginn en gerir það sjálfur, ætlast til að fólk spurji hann hvort hann "megi fá", en segir sjálfur "ég ætla að fá". Ætli við séum ekki sjálfum okkur verst?

Thursday, February 2, 2012

Vinsældarkosningar í Háskóla Íslands

Þessa dagana fara fram vinsældarkosningar í Háskóla Íslands. Síðustu tvo daga hafa síminn og facebook ekki stoppað. Alls konar fólk vill athuga hvort ég hafi myndað mér skoðun á kosningum til Stúdentaráðs HÍ og hvort ég vilji ekki kjósa sitt framboð. Enginn virðist geta sagt mér af hverju ég eigi að kjósa Röskvu fram yfir Vöku, hvað það er sem Vaka ætlar að gera sem Röskva vill ekki. Hvað gerir maður þá? Jú, maðurinn skoðar málefnaskrár framboðanna. Niðurstaðan í mjög stuttu máli er sú að, haldið ykkur nú málefnin sem Röskva og Vaka ætla að berjast fyrir eru nákvæmlega þau sömu.

Hvernig stendur eiginlega á þessu? Hvernig stendur á því að stúdentar ætla að berjast fyrir nákvæmlega því sama? Þetta svaraði sig sjálft, er það ekki? Auðvitað vilja allir stúdentar hafna skólagjöldum. Auðvitað vilja allir stúdentar bætta aðstöðu fyrir nemendur. Auðvitað vilja allir stúdentar niðurgreidd leikskólagjöld fyrir stúdenta. Einhver benti á að þetta væri spurning um mismunandi hugmyndafræði, en ég bara get ekki séð hvaða mismunandi hugmyndafræði er til að beita til að bæta aðstöðu fyrir nemendur.

Það er þess vegna sem ég segi að fram fari vinsældarkosningar, þetta virðist allt vera spurning um að hringja í sem flesta og fá þá til að kjósa sitt framboð. Þess vegna skil ég ekki af hverju ekki er notast við persónukjör í kosningum til Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Það er nefninlega þannig að við treystum ekki hvaða fólki sem er til að berjast fyrir okkar málefnum. En að skipta okkur upp í tvær fylkingar, sem berjast fyrir sömu málefnum? Það er eiginlega bara pínu kjánalegt.