Thursday, February 2, 2012

Vinsældarkosningar í Háskóla Íslands

Þessa dagana fara fram vinsældarkosningar í Háskóla Íslands. Síðustu tvo daga hafa síminn og facebook ekki stoppað. Alls konar fólk vill athuga hvort ég hafi myndað mér skoðun á kosningum til Stúdentaráðs HÍ og hvort ég vilji ekki kjósa sitt framboð. Enginn virðist geta sagt mér af hverju ég eigi að kjósa Röskvu fram yfir Vöku, hvað það er sem Vaka ætlar að gera sem Röskva vill ekki. Hvað gerir maður þá? Jú, maðurinn skoðar málefnaskrár framboðanna. Niðurstaðan í mjög stuttu máli er sú að, haldið ykkur nú málefnin sem Röskva og Vaka ætla að berjast fyrir eru nákvæmlega þau sömu.

Hvernig stendur eiginlega á þessu? Hvernig stendur á því að stúdentar ætla að berjast fyrir nákvæmlega því sama? Þetta svaraði sig sjálft, er það ekki? Auðvitað vilja allir stúdentar hafna skólagjöldum. Auðvitað vilja allir stúdentar bætta aðstöðu fyrir nemendur. Auðvitað vilja allir stúdentar niðurgreidd leikskólagjöld fyrir stúdenta. Einhver benti á að þetta væri spurning um mismunandi hugmyndafræði, en ég bara get ekki séð hvaða mismunandi hugmyndafræði er til að beita til að bæta aðstöðu fyrir nemendur.

Það er þess vegna sem ég segi að fram fari vinsældarkosningar, þetta virðist allt vera spurning um að hringja í sem flesta og fá þá til að kjósa sitt framboð. Þess vegna skil ég ekki af hverju ekki er notast við persónukjör í kosningum til Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Það er nefninlega þannig að við treystum ekki hvaða fólki sem er til að berjast fyrir okkar málefnum. En að skipta okkur upp í tvær fylkingar, sem berjast fyrir sömu málefnum? Það er eiginlega bara pínu kjánalegt.

1 comment:

  1. Mig langar í símhringingu til að segja mér hvað ég eigi að kjósa...

    ReplyDelete