Monday, February 6, 2012

Íslendingar eru bölvaðir dónar!

Íslendingar eru bölvaðir dónar. Þeir segja t.d. "ég ætla að fá" en ekki "má ég fá" eða "get ég fengið", sbr. "can I have." Fullir Íslendingar eru ekkert skárri, þeir ætla ekki einu sinni að fá, tala yfirleitt bara í stikkorðum; Bjór! Tequila! Vodka í kók, ekki klaka! Síðan brosum við ekkert rosalega mikið og bjóðum bara góðan daginn af því að okkur er sagt að það sé almenn kurteisi.
Þegar ég kem heim frá útlöndum tekst mér alltaf að vera ekki bölvaður dóni í nokkra daga. Segi "Góðan daginn, má ég fá eina pylsu með öllu takk."

Íslendingar hafa enga rýmisgreind. Þeir eru nefninlega snillingar í því að vera fyrir hvorum öðrum. Þegar tvenn hjón með barnavagn og öskrandi börn (sem eru efni í heilt annað blaður) hittast fyrir framan morgunkornið í Bónus, þykir alveg sjálfsagt að stoppa bara þar og spjalla. Svo er náttúrulega argasti dónaskapur að smeygja sér á milli með kurteisislegu "ahemm, afsakið." Þá fær maður augnaráð. Það er heldur ekki séns að mæta Íslending úti á götu, ég tala nú ekki um í Kringlunni þegar það er lokadagur útsölu, án þess að hann labbi á mann. Rýmisgreind; núll. Einhvern veginn tekst okkur alltaf að fara í sömu áttina og vera fyrir, stoppa í miðjum gangvegi með bakið í umferðina og taka ekki einu sinni eftir öðru fólki. Af hverju ekki bara að brosa meira og horfa fram á við, en ekki niður í gólf?

Til að koma í veg fyrir allan misskilning skal tekið fram að undirritaður er ekkert skárri. Hann pirrar sig yfir fólki sem stoppar gangveginn en gerir það sjálfur, ætlast til að fólk spurji hann hvort hann "megi fá", en segir sjálfur "ég ætla að fá". Ætli við séum ekki sjálfum okkur verst?

No comments:

Post a Comment