Sunday, October 7, 2012

Hr. Lakkríste

Ég er fluttur. Það er eiginlega saga að segja frá. Ég var að leigja herbergi á fínum stað í bænum, alveg við hliðina á Hovedbanegården, 2 mínútur að hjóla á Strikið. Ég var að leigja hjá tæplega fimmtugum atvinnulausum manni. Þar byrjar einmitt ballið. Hann var (og er örugglega ennþá, miðað við metnaðinn sem ég sá) atvinnulaus sem þýðir að hann mátti ekki hafa tekjur af því að þá lækkuðu atvinnuleysisbæturnar. Hann var sem sagt að leigja svart. Þetta þýddi að ég gat ekki skráð heimilisfangið mitt hjá honum. Gott með hann, sérstaklega gott með hann að segja mér það þegar ég var búinn að taka leigubíl og bera töskurnar mínar upp á 2. hæð (3. hæð á íslenskan hæðarkvarða). Hann ætlaði nú samt að tala við systur sína um hvort ég gæti verið skráður þar, því einhversstaðar þarf ég að vera með skráð heimilsfang til að fá CPR númer (kennitölu) og án CPR númers er ég bara ferðamaður, get ekki fengið bankareikning eða kort í rætkina o.s.frv.

Þetta gekk allt voða hægt og mér leið satt best að segja ekkert rosa vel hjá honum. Ekki misskilja mig, hann er ágætis kall. Vinnur (þegar hann nennir að finna sér vinnu) við tölvur og er hláturjógakennari í frístundum. En hann safnar uppvaski og ryki, borðar bara hafragraut og drekkur ólýsanlega mikið af lakkrístei. Svo horfir hann rosalega mikið á sjónvarpið og uppáhalds tölvuleikurinn hans er Bubbles (þetta veit ég af því að hann spilaði hann alltaf með hljóðið á). Svo bauðst mér íbúð. Í stuttu máli sagt þá er stelpa sem heitir Heidi og var að vinna með mér á Reykjavík Backpackers sem á íbúð hér í Kaupmannahöfn. Hún er á Íslandi allavega fram yfir jól og áramót og íbúðin var að losna, með húsgögnum og öllu. Þannig að ég segi við hr. Lakkríste að ég ætli að flytja út. Gamli var svo sem ekkert svaka ánægður, enda bara tvær og hálf vika í mánaðarmót. Hann talaði eitthvað um mánaðaruppsagnarfrest en ég hlustaði ekki á það, enda ekki með neinn samning, ekki búinn að borga tryggingargjald og ekki einu sinni búinn að borga leiguna á þessum tímapunkti (sem ég gerði samt alveg, ég er enginn douche!). Í svona viku leið mér eins og ég hefði beðið um skilnað um miðjan mánuðinn sem tæki samt ekki gildi fyrr en um mánaðarmótin, svona frekar vandræðaleg stemming í gangi.

Nú er ég sem sagt fluttur í mína eigin íbúð, get eldað mér mat sómasamlega og það er ekkert uppsafnað uppvask eftir aðra, engin skrítin fiskilykt og enginn sem klárar haframjölið mitt nema ég. Ég er 8 mínútur að hjóla í skólann og Netto er í sömu götu og íbúðin mín. Ég á danska kennitölu, fæ póst í póstkassa sem er merktur mér og bíð spenntur eftir gula kortinu (allsherjar skilríki dana, þeir leigja manni ekki einu sinni spólu án þess).

En nóg um íbúðardrama. Í öðrum fréttum er þetta helst:
Við Steinunn erum með í meistaramánuði, annað blogg um það síðar í vikunni (þetta er svona trix til að halda þér á tánum lesandi góður. Á föstudaginn er Kulturnatten í Kaupmannahöfn (menningarnótt) og skólinn er með í því. Alla vikuna verðum við að vinna með breskum gestakennara að nafni Stuart Lynch að 6 tíma performance sem verður sýndur í skólanum frá kl. 18 til miðnættis á föstudaginn, allir velkomnir og aðgangur er ókeypis. Eftir það er komið að efterårsferie og þá er ferðinni heitið til Íslands með viðkomu í Noregi. Mikið rosalega verður það ljúft!

Svo styttist bara í jólin (nei ég er ekki að grínast!) og það verða komnir páskar 2013 áður en við vitum af! Tíminn líður fáránlega hratt en á sama tíma asnalega hægt. Hvernig á því stendur er spurning sem verður seint svarað. Eins og áður segir, nánar um meistaramánuð síðar í vikunni og í tilefni af honum enda ég á nokkrum myndum af áhugaverðri óhollustu sem ég hef rekist á í borg konungsins.

Jú, við erum að tala um Mars-, Bounty-, Galaxy- 
og Milky Way-mjólk

Svava og Bjarni kíktu í nokkra klukkutíma á leiðinni til Asíu 
og Svava greip með sér Bacon varasalva í leiðinni.

Sleipiefni. Ekkert jarðaberja- eða 
kirsuberjabragð, ekkert kiwi. Bara bacon.

2 comments:

  1. ókey baconsleipiefni er mögulega það ógeðslegasta sem ég hef heyrt um

    ReplyDelete
  2. Sem áhugamaður um drykki almennt, þá hef ég smakkað svona Marsmjólk (auðvitað) ... held að þetta sé sama stöff og fæst hér í UK og ég get sagt þér það að þetta er algjör viiiiiðbjóður! Fáðu þér frekar meira af lakkríste, það er málið! Gott fyrir svefninn!! :-)

    Kv Siggi G

    ReplyDelete