Friday, November 9, 2012

Að spurja sig spurninga

Allt í einu fann ég fyrir gífurlegri þörf til að skrifa. Hvers vegna? Af því að netheimar loga eftir frétt sem birtist á emmafrettir.com fyrr í dag. Það er margt sem ég hef um málið að segja, sjáum hvað ég kemst langt. Ég ætla ekki að setja hlekk á fréttina eða annað tengt því í ljósi þess að mér finnst umræðan vera farin úr böndunum með tilliti til friðhelgi einkalífsins og meiðyrðum sem svo sannarlega hafa fallið á internetinu í dag.

Ok, núna rétt í þessum töluðu orðum var mér bent á afsökunarbeiðni frá drengnum sem fer hér á eftir og ætla ég þar af leiðandi ekki að fjalla nánar um hans hlut í máli, það er nóg um það á öðrum stöðum.

Vegna lýsingar minnar á fótbolta kvenna á íþróttadegi Menntaskólans á Akureyri í gær vil ég biðja alla viðstadda innilega afsökunar. Ég bið sérstaklega afsökunar þær stelpur sem um var rætt, íþróttakennara skólans, skólameistara og alla þá sem ummæli mín særðu á einhvern hátt. 
Ég get því miður ekki tekið hegðun mína til baka, en mér finnst þetta virkilega leiðinlegt, sé mjög eftir þessu og vonandi getið þið fyrirgefið mér.

Það sem situr helst eftir í mér eftir kvöldið, er eftirfarandi: Hvað veldur því að fólki finnst í lagi að niðurlægja annað kynið til þess að vera fyndinn og hvenær er eitthvað hætt að vera fyndið og gengið of langt? Hvað gerist í hausum á fólki þegar það fellir sleggjudóma yfir fólki á internetinu? Höfum það samt á hreinu að hér eru bara vangaveltur, ef þú ert í leit að svörum þá ertu ekki á réttum stað.

Byrjum á því fyrra:
Það virðist sem í samfélaginu okkar í dag þyki fyndið að niðurlægja annað kynið. Strákar niðurlægja stelpur og stelpur niðurlægja stráka. Stundum er það fyndið. Það getur t.d. verið fyndið að kalla knattspyrnu kvenna "skonsubolta" innan ákveðins hóps, t.d. vinahópi þularins. En að gera það fyrir framan allan skólann þykir mér frekar misheppnað. Það er kannski ekki gengið of langt, ekki á þessu stigi, en í þessum hóp þykja svona ummæli frekar óheppileg og misheppnuð. Þar er rétt að stoppa.

Góður maður benti mér á það hvernig viðurkenndur húmor sem er mjög svartur en felur á sama tíma í sér vissa ádeilu, helst í hendur við húmor okkar kynslóðar. Ég er hér að tala um Hugleik Dagsson, en brandararnir hans eru mjög svo á mörkunum, en dansa einhvern veginn fallega á línunni og einmitt ganga ekki of langt. Vandamálið er hins vegar það að margir átta sig ekki á kaldhæðninni og ádeilunni og sjá bara að það er fyndið að niðurlægja, fyndið að segja typpi og píka. Það er ákveðin færni að dansa þann dans sem Hugleikur dansar og ekki á allra valdi. Sjálfur kann ég þennan dans ekki. Ekki meira um þetta í bili.

Að öðru. Hvað gerist í hausnum á fólki þegar það fellir sleggjudóma yfir fólki á internetinu? Er þetta fólk einhverju skárra en þeir sem það dæmir? Atburðarásin í kvöld var hreint út sagt stórkostlegt. Fréttin birtist á emmafrettir.com, hún fór að berast um facebook, komst á knúz.is og endaði svo á vefsíðu Akureyri Vikublaðs. Allt í lagi með það, umræðan er þörf. En hvaða umræða? Ekki umræðan um það hvort umræddur þulur sé slæm manneskja, tappi, eða þaðan af verra. Ekki um það hvort hann sé illa upp alinn. Umræðan á að snúast um það hvers vegna þetta er að gerast árið 2012, hvað er að klikka í kerfinu? Af hverju á fyrirlitning, í hvaða mynd sem hún er, sér stað á hverjum degi í okkar annars ágæta þjóðfélagi? Því miður var það ekki umræðan sem fór af stað. Fólk hér og þar á landinu hóf að dæma þulinn og ráðast á hann persónulega. Ég hefði gaman af því að sjá sum ummælanna fara fyrir dóm. Það gleymist alltaf að við einhvern annan tölvuskjá situr sá sem er verið að skrifa um, manneskja með tilfinningar sem á fjölskyldu og vini. Stundum þarf að anda djúpt og telja upp á 10 og skrifa svo. Það þarf að hugsa á gagnrýnin hátt, spurja sig spurninga, muna að öll mál eiga sér tvær hliðar. Við getum ekki dæmt fólk út frá einni frétt. Við getum vissulega dæmt ummælin, við getum dæmt viðbrögð þeirra sem voru viðstaddir, við getum dæmt okkur sjálf sem þátttakendur í þessu samfélagi. En við getum ekki dæmt manneskju sem hálfvita, fávita eða fífl sem þurfi á aðstoð að halda, jafnvel reka úr skóla. Ég að vísu lét þau orð falla að skólameistari ætti að skoða það að víkja honum tímabundið úr skóla. En að reka hann alveg finnst mér fásinna, réttara væri að skoða hvernig skólinn getur bætt sína fræðslu til að koma í veg fyrir svona lagað.

Niðurstaðan er einhvern veginn svona:
Hugsum gagnrýnið um það sem við lesum eða heyrum og það sem við sjálf segjum og lærum að spurja spurninga í stað þess að fella sleggjudóma yfir fólki sem við þekkjum ekki neitt.

Ást og friður.

3 comments:

  1. Því miður er múgæsingurinn oft svo mikill, í þessu tilfelli bæði á meðal þeirra sem verja ummælin og svo hjá þeim sem ráðast á þulinn, að við gleymum að telja upp á tíu og hugsa áður en við skrifum. Ég reyndi að gera það sjálf í þessari umræðu í kvöld og vona að það hafi tekist.

    Þeir sem kommenta á þessar fréttir (sem hafa dreifst á þónokkuð fleiri síður núna, m.a. hun.is sá ég) þurfa alveg jafn mikið að telja upp að 10 og hugsa sig um áður en þeir tjá sig eins og þulurinn sem sagði það sem þetta fíaskó snýst allt um.

    Það sem ég lærði af þessu kvöldi er að mannkynið á bæði eftir að læra að hætta að vera með kven- og karlfyrirlitningu og að hætta að leggja í einelti.

    ReplyDelete
    Replies
    1. Ég vona að þú sért ekki að misskilja mig Tinna, minni gagnrýni er fyrst og fremst beint gegn "kommenturunum", ekki þulinum. Hans ummæli dæma sig sjálf og hafa fengið næga útreið.

      Delete
    2. Nei, ég vona að ég sé ekki að gera það enda, eins og ég sagði, vil ég að kommentarar taki alveg jafn langan tíma og þulurinn þegar kemur að því að tala/skrifa.

      Delete