Saturday, September 8, 2012

Að hlakka til

Ég sagði í síðasta bloggi að kannski yrði það eina bloggið, kannski ekki. Ætli þetta verði ekki svolítið þannig að á meðan einhverjir lesa það sem ég skrifa, þá skrifa ég.

Það er alveg ótrúlegt hvað fjölbreytileikinn er mikill í Kaupmannahöfn. Á degi eitt sat maður á bekk, og starði út í loftið. Hann var með axlasítt dökkt hár, smá skeggrót, klæddur í fallega silkiblússu og bláan jakka, í pilsi og sokkabuxum. Andlitið skreytti hann með bleikum varalit og bláum augnskugga. Það kippti sér enginn upp við þetta, hann sat bara þarna eins og hver annar maður. Hérna eru bara allir eins og þeir vilja vera og það er öllum sama. Magnið af óheyrilega ljótum fötum sem ég hef séð er alveg ótrúlegt.

Ég hef mjög gaman af því að fylgjast með öðru fólki. Þá er ég ekki að meina að elta það, heldur bara fylgjast með því koma og fara. Maður sér svo margt skemmtilegt og það allra skemmtilegasta er að búa til sögur um þetta fólk, hvaðan það er að koma, hvert það er að fara, hvað það gerir o.s.frv. Á leiðinni heim úr búðinni áðan sá ég t.d. nokkra menn á fertugsaldri saman í þvottahúsi að þvo þvott og drekka bjór. Par á svipuðum aldri sat á veitingastað við kertaljós og drakk rauðvín. Á öðrum veitingastað sátu tvenn eldri hjón í sínu fínasta pússi og þjónn í hvítri skyrtu með svarta svuntu hellti freyðivíni í glös handa þeim, ég gat ekki annað en brosað.

Ég hef komist að einu um sjálfan mig. Ég vissi alltaf að ég væri félagsvera, en ég held að það orð nái ekki nógu vel utan um það sem ég er. Ég þarf á öðru fólki að halda. Þá verður mér hugsað til þess að ég ætlaði að ferðast um Evrópu einn í heilan mánuð. Sem betur fer kom Tryggvi með mér, ég held að ég hefði hreinlega ekki getað hitt og sennilega komist að því "the hard way".

Ég er líka búinn að komast að því að ég hef gott af því að hafa eitthvað að hlakka til. Í dag hitti ég t.d. Ingu Lilju og vinkonur hennar, sem áttu stutt stopp á leiðinni til Malmö. Ég settist niður með þeim og fékk mér einn bjór og tók við sendingu sem Inga var með; bók sem ég hafði gleymt heima. Inni í bókina höfðu mamma og pabbi sett opnu úr Akureyri vikublaði, viðtal við Grétu, sem mér þótti alveg ótrúlega vænt um, svo ég tali nú ekki um hvað þetta var skemmtileg lesning. Á mánudaginn koma svo Bjarni og Svava til Köben í stuttu stoppi á leiðinni til Asíu. Hvað það verður svo veit ég ekki, ég finn mér eitthvað gott.

No comments:

Post a Comment