Wednesday, September 12, 2012

Grasi gróin Kaupmannahöfn

Einhversstaðar heyrði ég eða las að framboð fylgdi eftirspurn. Ég sel það svo sem ekki dýrara en ég keypti það, en það virðist sem það sé eftirspurn eftir Gísla-skrifum og þá finnur maður viljann til að skrifa. Undanfarna tvo daga finnst mér hreinlega eins og ég skuldi blogg, en það er sennilega bara mikilmennskubrjálæði í mér, en hvað um það.

Það er alveg ótrúlega mikið um gras í Kaupmannahöfn. Þá á ég ekki við grasi grónar umferðareyjur, heldur marijúana. Fyrir dönum er gras ekki eiturlyf, það er bara þarna, bara eitthvað sem sumir nota og aðrir ekki, svona eins og sígarettur og áfengi. Christiania er staður sem allir hafa heyrt um. Það er alveg mögnuð upplifum að koma þangað, sérstaklega á föstudagskvöldi (já mamma, ég fer varlega!). Það eru þrjár mjög einfaldar reglur í Chrisianiu: Hafðu gaman, ekki hlaupa og engar myndir. Þessi síðasta fær mest vægi, það eru skilti út um allt og mér datt ekki í hug að smella af á símann minn.

Svo er það blessað grasið. Ýmislegt hefur maður heyrt um grasreykingjar í Christianiu, en þessu átti ég ekki von á. Var ég virkilega að sjá þetta með mínum eigin augum? Þetta var nánast eins og að koma í Kolaportið. Hér og þar voru básar, misstórir, þar sem hægt var að kaupa gras af ýmsum gerðum sem ég einfaldlega þekki ekki nógu vel til. Sumir keyptu grasið eitt og sér, bara svona eins og að fara á nammibarinn, viktað í poka. Aðrir keyptu sér tilbúnar jónur sem voru til í öllum stærðum. Hér og þar voru svo minni básar sem seldu bara tilbúnar jónur og lyktin leyndi sér hvergi, hér var sko ekki verið að reykja sígarettur.

Eftir smá göngutúr endum við í jaðri Christianiu, hinu meginn við þann enda sem við komum inn. Einverjir halda að þar höfum við rekist á jafnvel enn sterkari efni, massatröll og handrukkara. En nei, þar tóku á móti okkur tvö stór hús, íbúðarhús, og þar inni sat fullorðið fólk, drakk rauðvín og spilaði á spil eða horfði á sjónvarp. Mínar heimildir herma þó að það fái ekki hver sem er að búa á þessum stað í bænum, menn þurfa að stimpla sig inn í Christianiu samfélagið fyrst.

Eftir langan göngutúr um þennan allt öðruvísi og eiginlega bara frekar súrrealíska menningarheim, var haldið heim á leið, ætli ég hafi ekki bara fengið vægt menningarsjokk?

No comments:

Post a Comment