Wednesday, September 5, 2012

Lífið í Köben, eins og það er!

Það er ótrúlega skrýtið að vera kominn til Kaupmannahafnar.
Fyrstu dagana var allt ótrúlega spennandi og skemmtilegt, bæði skólinn og lífið í stórborginni. Svo varð allt einhvernveginn raunverulegra og aðeins ógnvænlegra. Það er nefninlega hægara sagt en gert að fara  úr 18.000 manna bæjarfélagi upp í 1,2 milljóna stórborg. Síðustu daga hefur allt verið frekar yfirþyrmandi, ég er eiginlega í smá raunveruleikasjokki. Þetta hljómar svolítið eins og í teiknimynd en það er bara nákvæmlega þannig sem það er; allir þessir bílar, allt þetta fólk, öll þessi hjól og allur þessi hraði. Það sem er eiginlega skrýtnast er að vera svona langt í burtu frá öllum, en ætli það venjist ekki bara?

Sem betur fer er ég ekki eini Íslendingurinn í skólanum, við erum alveg þó nokkur sem er æðislegt. Danskan gengur ágætlega en bekkjarsystkinin eru ótrúlega þægileg með að tala hægt, segja allt tvisvar og þýða það svo á dönsku. Fyrst skildi ég eiginlega ekkert hvað var í gangi í tímum en núna skil ég mest allt, þó svo að ég skilji það ekki orð fyrir orð. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að segja frá því sem við erum að gera í skólanum. Eitt það fyrsta sem gamall nemandi við skólann sagði við mig, var að hann hefði tiltölulega fljótt gefist upp á að segja öllum heima hvað væri í gangi í skólanum, ekki það að þetta sé einhverjir Frímúrarafundir, leiklistaræfingar geta bara verið svo stórfurðulegar, sérstaklega þegar maður reynir að segja frá þeim, þetta snýst svo mikið um að upplifa.

Mig vantar samt eitthvað að gera eftir skóla, alveg rosalega mikið. Það er ekki mikið heimanám (ennþá) þannig að eftir skóla er ég frekar eirðarlaus og, tjah, segjum það bara eins og það er, smá einmana. Ég er að spá í kaupa mér kort í ræktina og fara að hreyfa mig meira, jafnvel athuga hvort ég fæ vinnu og hver veit nema ég finni mitt innra skáld? Það getur sko allt gerst í Kaupmannahöfn!

Það er ekkert víst að ég bloggi oftar í Köben, það verður í það minnsta ekki reglulegt, svo að það þýðir ekkert að bíða spenntur eftir næsta bloggi, sú bið gæti orðið endalaus.

Ég læt fylgja smá símamyndir með svona í restina:
Þegar við Tryggvi hófum Interrail-ferðina okkar 
1. sept 2010 voru þessir á ráðhústorginu, þeir eru ennþá að!

Við Einar Helgi mættum Svartur á leik plaggati
inni á barklósetti... Ó elsku litla heimsfræga Ísland!


Það eru greinilega mótorhjólapartý á fleiri stöðum en
Ráðhústorgi á Akureyri, þarna voru þeir samt aðeins fleiri...

No comments:

Post a Comment