Tuesday, December 11, 2012

Opið bréf til jólasveinanna

Grýla og Leppalúði
c/o Stekkjastaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottaskefill, Askasleikir, Hurðaskellir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur og Kertasníkir.
924 Íslensku óbyggðunum

Kæru jólasveinar.

Nú fer að styttast í að þið bræðurnir röltið til byggða allir sem einn til að gleðja lítil börn með fallegum litlum gjöfum í skóinn. Mig langaði bara aðeins að minna þig á tilganginn með þessum gjöfum þínum; að gleðja lítil börn og stytta biðina eftir jólunum. Ég hef nefninlega heyrt að stundum gleymið þið bræðurnir ykkur og gefið einu barni mandarínu en í næsta skó laumið þið iPod. Þá verða börnin leið og þessar litlu sætu gjafir eru ekki lengur fallnar til þess að gleðja heldur valda öfundsýki og láta sumum börnum líða illa. Svo er alveg rosalega erfitt fyrir mömmu og pabba að útskýra hvers vegna einn fær mandarínu en annar iPod. Hvernig finndist ykkur ef þið fenguð allir mandarínu en Gilitrutt fengi nýjan vélsleða í skóinn?

Ég veit að þið bræðurnir eruð ekki sammála um hvernig eigi að fara að þessu. Sumir ykkar fá nefninlega símtöl og bréf frá foreldrum sem óska eftir því að börnin sín fái eitthvað dýrt í skóinn og sumir meira að segja láta ykkur fá iPod til að lauma í skóinn, eða það hef ég allavega heyrt. Ég veit að það getur verið erfitt að hafa vit fyrir foreldrum sem vilja öllu ráða og hugsa bara um sig og sín börn og er alveg sama um alla hina. En ekki gleyma því, elsku jólasveinar, að ykkar hlutverk er ekki að gefa börnunum það sem þau langar mest að fá í öllum heimi-geiminum. Ef mamma og pabbi vilja að barnið sitt fái iPod, þá geta þau bara gefið það sjálf í jólagjöf, það er ekki ykkar hlutverk að dreyfa rándýru tæknidóti sem var ekki einu sinni til þegar þið fæddust.
Að lokum, ef ég hef ekki náð til ykkar nú þegar, þá vil ég orða þetta svona. Þessi hegðun ykkar að gefa sumum mandarínu og öðrum iPod, og vekja þannig upp öfundsýki og gera sum börn leið og jafnvel reið, jafnast nánast á við það þegar þið stáluð mat og drykk og skelltuð hurðum hér í gamla daga. Þið vitið betur elsku jólasveinar.

Virðingarfyllst,
Gísli Björgvin Gíslason

Ps. Mig langar í Strumpaópal í skóinn.

Friday, November 9, 2012

Að spurja sig spurninga

Allt í einu fann ég fyrir gífurlegri þörf til að skrifa. Hvers vegna? Af því að netheimar loga eftir frétt sem birtist á emmafrettir.com fyrr í dag. Það er margt sem ég hef um málið að segja, sjáum hvað ég kemst langt. Ég ætla ekki að setja hlekk á fréttina eða annað tengt því í ljósi þess að mér finnst umræðan vera farin úr böndunum með tilliti til friðhelgi einkalífsins og meiðyrðum sem svo sannarlega hafa fallið á internetinu í dag.

Ok, núna rétt í þessum töluðu orðum var mér bent á afsökunarbeiðni frá drengnum sem fer hér á eftir og ætla ég þar af leiðandi ekki að fjalla nánar um hans hlut í máli, það er nóg um það á öðrum stöðum.

Vegna lýsingar minnar á fótbolta kvenna á íþróttadegi Menntaskólans á Akureyri í gær vil ég biðja alla viðstadda innilega afsökunar. Ég bið sérstaklega afsökunar þær stelpur sem um var rætt, íþróttakennara skólans, skólameistara og alla þá sem ummæli mín særðu á einhvern hátt. 
Ég get því miður ekki tekið hegðun mína til baka, en mér finnst þetta virkilega leiðinlegt, sé mjög eftir þessu og vonandi getið þið fyrirgefið mér.

Það sem situr helst eftir í mér eftir kvöldið, er eftirfarandi: Hvað veldur því að fólki finnst í lagi að niðurlægja annað kynið til þess að vera fyndinn og hvenær er eitthvað hætt að vera fyndið og gengið of langt? Hvað gerist í hausum á fólki þegar það fellir sleggjudóma yfir fólki á internetinu? Höfum það samt á hreinu að hér eru bara vangaveltur, ef þú ert í leit að svörum þá ertu ekki á réttum stað.

Byrjum á því fyrra:
Það virðist sem í samfélaginu okkar í dag þyki fyndið að niðurlægja annað kynið. Strákar niðurlægja stelpur og stelpur niðurlægja stráka. Stundum er það fyndið. Það getur t.d. verið fyndið að kalla knattspyrnu kvenna "skonsubolta" innan ákveðins hóps, t.d. vinahópi þularins. En að gera það fyrir framan allan skólann þykir mér frekar misheppnað. Það er kannski ekki gengið of langt, ekki á þessu stigi, en í þessum hóp þykja svona ummæli frekar óheppileg og misheppnuð. Þar er rétt að stoppa.

Góður maður benti mér á það hvernig viðurkenndur húmor sem er mjög svartur en felur á sama tíma í sér vissa ádeilu, helst í hendur við húmor okkar kynslóðar. Ég er hér að tala um Hugleik Dagsson, en brandararnir hans eru mjög svo á mörkunum, en dansa einhvern veginn fallega á línunni og einmitt ganga ekki of langt. Vandamálið er hins vegar það að margir átta sig ekki á kaldhæðninni og ádeilunni og sjá bara að það er fyndið að niðurlægja, fyndið að segja typpi og píka. Það er ákveðin færni að dansa þann dans sem Hugleikur dansar og ekki á allra valdi. Sjálfur kann ég þennan dans ekki. Ekki meira um þetta í bili.

Að öðru. Hvað gerist í hausnum á fólki þegar það fellir sleggjudóma yfir fólki á internetinu? Er þetta fólk einhverju skárra en þeir sem það dæmir? Atburðarásin í kvöld var hreint út sagt stórkostlegt. Fréttin birtist á emmafrettir.com, hún fór að berast um facebook, komst á knúz.is og endaði svo á vefsíðu Akureyri Vikublaðs. Allt í lagi með það, umræðan er þörf. En hvaða umræða? Ekki umræðan um það hvort umræddur þulur sé slæm manneskja, tappi, eða þaðan af verra. Ekki um það hvort hann sé illa upp alinn. Umræðan á að snúast um það hvers vegna þetta er að gerast árið 2012, hvað er að klikka í kerfinu? Af hverju á fyrirlitning, í hvaða mynd sem hún er, sér stað á hverjum degi í okkar annars ágæta þjóðfélagi? Því miður var það ekki umræðan sem fór af stað. Fólk hér og þar á landinu hóf að dæma þulinn og ráðast á hann persónulega. Ég hefði gaman af því að sjá sum ummælanna fara fyrir dóm. Það gleymist alltaf að við einhvern annan tölvuskjá situr sá sem er verið að skrifa um, manneskja með tilfinningar sem á fjölskyldu og vini. Stundum þarf að anda djúpt og telja upp á 10 og skrifa svo. Það þarf að hugsa á gagnrýnin hátt, spurja sig spurninga, muna að öll mál eiga sér tvær hliðar. Við getum ekki dæmt fólk út frá einni frétt. Við getum vissulega dæmt ummælin, við getum dæmt viðbrögð þeirra sem voru viðstaddir, við getum dæmt okkur sjálf sem þátttakendur í þessu samfélagi. En við getum ekki dæmt manneskju sem hálfvita, fávita eða fífl sem þurfi á aðstoð að halda, jafnvel reka úr skóla. Ég að vísu lét þau orð falla að skólameistari ætti að skoða það að víkja honum tímabundið úr skóla. En að reka hann alveg finnst mér fásinna, réttara væri að skoða hvernig skólinn getur bætt sína fræðslu til að koma í veg fyrir svona lagað.

Niðurstaðan er einhvern veginn svona:
Hugsum gagnrýnið um það sem við lesum eða heyrum og það sem við sjálf segjum og lærum að spurja spurninga í stað þess að fella sleggjudóma yfir fólki sem við þekkjum ekki neitt.

Ást og friður.

Sunday, October 7, 2012

Hr. Lakkríste

Ég er fluttur. Það er eiginlega saga að segja frá. Ég var að leigja herbergi á fínum stað í bænum, alveg við hliðina á Hovedbanegården, 2 mínútur að hjóla á Strikið. Ég var að leigja hjá tæplega fimmtugum atvinnulausum manni. Þar byrjar einmitt ballið. Hann var (og er örugglega ennþá, miðað við metnaðinn sem ég sá) atvinnulaus sem þýðir að hann mátti ekki hafa tekjur af því að þá lækkuðu atvinnuleysisbæturnar. Hann var sem sagt að leigja svart. Þetta þýddi að ég gat ekki skráð heimilisfangið mitt hjá honum. Gott með hann, sérstaklega gott með hann að segja mér það þegar ég var búinn að taka leigubíl og bera töskurnar mínar upp á 2. hæð (3. hæð á íslenskan hæðarkvarða). Hann ætlaði nú samt að tala við systur sína um hvort ég gæti verið skráður þar, því einhversstaðar þarf ég að vera með skráð heimilsfang til að fá CPR númer (kennitölu) og án CPR númers er ég bara ferðamaður, get ekki fengið bankareikning eða kort í rætkina o.s.frv.

Þetta gekk allt voða hægt og mér leið satt best að segja ekkert rosa vel hjá honum. Ekki misskilja mig, hann er ágætis kall. Vinnur (þegar hann nennir að finna sér vinnu) við tölvur og er hláturjógakennari í frístundum. En hann safnar uppvaski og ryki, borðar bara hafragraut og drekkur ólýsanlega mikið af lakkrístei. Svo horfir hann rosalega mikið á sjónvarpið og uppáhalds tölvuleikurinn hans er Bubbles (þetta veit ég af því að hann spilaði hann alltaf með hljóðið á). Svo bauðst mér íbúð. Í stuttu máli sagt þá er stelpa sem heitir Heidi og var að vinna með mér á Reykjavík Backpackers sem á íbúð hér í Kaupmannahöfn. Hún er á Íslandi allavega fram yfir jól og áramót og íbúðin var að losna, með húsgögnum og öllu. Þannig að ég segi við hr. Lakkríste að ég ætli að flytja út. Gamli var svo sem ekkert svaka ánægður, enda bara tvær og hálf vika í mánaðarmót. Hann talaði eitthvað um mánaðaruppsagnarfrest en ég hlustaði ekki á það, enda ekki með neinn samning, ekki búinn að borga tryggingargjald og ekki einu sinni búinn að borga leiguna á þessum tímapunkti (sem ég gerði samt alveg, ég er enginn douche!). Í svona viku leið mér eins og ég hefði beðið um skilnað um miðjan mánuðinn sem tæki samt ekki gildi fyrr en um mánaðarmótin, svona frekar vandræðaleg stemming í gangi.

Nú er ég sem sagt fluttur í mína eigin íbúð, get eldað mér mat sómasamlega og það er ekkert uppsafnað uppvask eftir aðra, engin skrítin fiskilykt og enginn sem klárar haframjölið mitt nema ég. Ég er 8 mínútur að hjóla í skólann og Netto er í sömu götu og íbúðin mín. Ég á danska kennitölu, fæ póst í póstkassa sem er merktur mér og bíð spenntur eftir gula kortinu (allsherjar skilríki dana, þeir leigja manni ekki einu sinni spólu án þess).

En nóg um íbúðardrama. Í öðrum fréttum er þetta helst:
Við Steinunn erum með í meistaramánuði, annað blogg um það síðar í vikunni (þetta er svona trix til að halda þér á tánum lesandi góður. Á föstudaginn er Kulturnatten í Kaupmannahöfn (menningarnótt) og skólinn er með í því. Alla vikuna verðum við að vinna með breskum gestakennara að nafni Stuart Lynch að 6 tíma performance sem verður sýndur í skólanum frá kl. 18 til miðnættis á föstudaginn, allir velkomnir og aðgangur er ókeypis. Eftir það er komið að efterårsferie og þá er ferðinni heitið til Íslands með viðkomu í Noregi. Mikið rosalega verður það ljúft!

Svo styttist bara í jólin (nei ég er ekki að grínast!) og það verða komnir páskar 2013 áður en við vitum af! Tíminn líður fáránlega hratt en á sama tíma asnalega hægt. Hvernig á því stendur er spurning sem verður seint svarað. Eins og áður segir, nánar um meistaramánuð síðar í vikunni og í tilefni af honum enda ég á nokkrum myndum af áhugaverðri óhollustu sem ég hef rekist á í borg konungsins.

Jú, við erum að tala um Mars-, Bounty-, Galaxy- 
og Milky Way-mjólk

Svava og Bjarni kíktu í nokkra klukkutíma á leiðinni til Asíu 
og Svava greip með sér Bacon varasalva í leiðinni.

Sleipiefni. Ekkert jarðaberja- eða 
kirsuberjabragð, ekkert kiwi. Bara bacon.

Saturday, September 22, 2012

Tilgangur minn sem leikari 1.0

Inni í mér hefur alltaf kraumað einhver óútskýranleg hvöt; hvötin til að skapa. Ég hef unun af því að skapa, að standa á sviði fyrir framan annað fólk, að vekja upp tilfinningar þess og fá það til að hugsa. Hlutverk mitt sem leikari er að vera sjálfum mér trú, að viðurkenna mínar eigin tilfinningar, hugsanir og veikleika, þann mann sem ég hef raunverulega að geyma. Ég get ekki túlkað tilfinningar og upplifanir annarrar persónu án þess að samþykkja sjálfan mig.

Kaupmannahöfn, 19. september 2012
Gísli Björgvin Gíslason

Wednesday, September 12, 2012

Grasi gróin Kaupmannahöfn

Einhversstaðar heyrði ég eða las að framboð fylgdi eftirspurn. Ég sel það svo sem ekki dýrara en ég keypti það, en það virðist sem það sé eftirspurn eftir Gísla-skrifum og þá finnur maður viljann til að skrifa. Undanfarna tvo daga finnst mér hreinlega eins og ég skuldi blogg, en það er sennilega bara mikilmennskubrjálæði í mér, en hvað um það.

Það er alveg ótrúlega mikið um gras í Kaupmannahöfn. Þá á ég ekki við grasi grónar umferðareyjur, heldur marijúana. Fyrir dönum er gras ekki eiturlyf, það er bara þarna, bara eitthvað sem sumir nota og aðrir ekki, svona eins og sígarettur og áfengi. Christiania er staður sem allir hafa heyrt um. Það er alveg mögnuð upplifum að koma þangað, sérstaklega á föstudagskvöldi (já mamma, ég fer varlega!). Það eru þrjár mjög einfaldar reglur í Chrisianiu: Hafðu gaman, ekki hlaupa og engar myndir. Þessi síðasta fær mest vægi, það eru skilti út um allt og mér datt ekki í hug að smella af á símann minn.

Svo er það blessað grasið. Ýmislegt hefur maður heyrt um grasreykingjar í Christianiu, en þessu átti ég ekki von á. Var ég virkilega að sjá þetta með mínum eigin augum? Þetta var nánast eins og að koma í Kolaportið. Hér og þar voru básar, misstórir, þar sem hægt var að kaupa gras af ýmsum gerðum sem ég einfaldlega þekki ekki nógu vel til. Sumir keyptu grasið eitt og sér, bara svona eins og að fara á nammibarinn, viktað í poka. Aðrir keyptu sér tilbúnar jónur sem voru til í öllum stærðum. Hér og þar voru svo minni básar sem seldu bara tilbúnar jónur og lyktin leyndi sér hvergi, hér var sko ekki verið að reykja sígarettur.

Eftir smá göngutúr endum við í jaðri Christianiu, hinu meginn við þann enda sem við komum inn. Einverjir halda að þar höfum við rekist á jafnvel enn sterkari efni, massatröll og handrukkara. En nei, þar tóku á móti okkur tvö stór hús, íbúðarhús, og þar inni sat fullorðið fólk, drakk rauðvín og spilaði á spil eða horfði á sjónvarp. Mínar heimildir herma þó að það fái ekki hver sem er að búa á þessum stað í bænum, menn þurfa að stimpla sig inn í Christianiu samfélagið fyrst.

Eftir langan göngutúr um þennan allt öðruvísi og eiginlega bara frekar súrrealíska menningarheim, var haldið heim á leið, ætli ég hafi ekki bara fengið vægt menningarsjokk?

Saturday, September 8, 2012

Að hlakka til

Ég sagði í síðasta bloggi að kannski yrði það eina bloggið, kannski ekki. Ætli þetta verði ekki svolítið þannig að á meðan einhverjir lesa það sem ég skrifa, þá skrifa ég.

Það er alveg ótrúlegt hvað fjölbreytileikinn er mikill í Kaupmannahöfn. Á degi eitt sat maður á bekk, og starði út í loftið. Hann var með axlasítt dökkt hár, smá skeggrót, klæddur í fallega silkiblússu og bláan jakka, í pilsi og sokkabuxum. Andlitið skreytti hann með bleikum varalit og bláum augnskugga. Það kippti sér enginn upp við þetta, hann sat bara þarna eins og hver annar maður. Hérna eru bara allir eins og þeir vilja vera og það er öllum sama. Magnið af óheyrilega ljótum fötum sem ég hef séð er alveg ótrúlegt.

Ég hef mjög gaman af því að fylgjast með öðru fólki. Þá er ég ekki að meina að elta það, heldur bara fylgjast með því koma og fara. Maður sér svo margt skemmtilegt og það allra skemmtilegasta er að búa til sögur um þetta fólk, hvaðan það er að koma, hvert það er að fara, hvað það gerir o.s.frv. Á leiðinni heim úr búðinni áðan sá ég t.d. nokkra menn á fertugsaldri saman í þvottahúsi að þvo þvott og drekka bjór. Par á svipuðum aldri sat á veitingastað við kertaljós og drakk rauðvín. Á öðrum veitingastað sátu tvenn eldri hjón í sínu fínasta pússi og þjónn í hvítri skyrtu með svarta svuntu hellti freyðivíni í glös handa þeim, ég gat ekki annað en brosað.

Ég hef komist að einu um sjálfan mig. Ég vissi alltaf að ég væri félagsvera, en ég held að það orð nái ekki nógu vel utan um það sem ég er. Ég þarf á öðru fólki að halda. Þá verður mér hugsað til þess að ég ætlaði að ferðast um Evrópu einn í heilan mánuð. Sem betur fer kom Tryggvi með mér, ég held að ég hefði hreinlega ekki getað hitt og sennilega komist að því "the hard way".

Ég er líka búinn að komast að því að ég hef gott af því að hafa eitthvað að hlakka til. Í dag hitti ég t.d. Ingu Lilju og vinkonur hennar, sem áttu stutt stopp á leiðinni til Malmö. Ég settist niður með þeim og fékk mér einn bjór og tók við sendingu sem Inga var með; bók sem ég hafði gleymt heima. Inni í bókina höfðu mamma og pabbi sett opnu úr Akureyri vikublaði, viðtal við Grétu, sem mér þótti alveg ótrúlega vænt um, svo ég tali nú ekki um hvað þetta var skemmtileg lesning. Á mánudaginn koma svo Bjarni og Svava til Köben í stuttu stoppi á leiðinni til Asíu. Hvað það verður svo veit ég ekki, ég finn mér eitthvað gott.

Wednesday, September 5, 2012

Lífið í Köben, eins og það er!

Það er ótrúlega skrýtið að vera kominn til Kaupmannahafnar.
Fyrstu dagana var allt ótrúlega spennandi og skemmtilegt, bæði skólinn og lífið í stórborginni. Svo varð allt einhvernveginn raunverulegra og aðeins ógnvænlegra. Það er nefninlega hægara sagt en gert að fara  úr 18.000 manna bæjarfélagi upp í 1,2 milljóna stórborg. Síðustu daga hefur allt verið frekar yfirþyrmandi, ég er eiginlega í smá raunveruleikasjokki. Þetta hljómar svolítið eins og í teiknimynd en það er bara nákvæmlega þannig sem það er; allir þessir bílar, allt þetta fólk, öll þessi hjól og allur þessi hraði. Það sem er eiginlega skrýtnast er að vera svona langt í burtu frá öllum, en ætli það venjist ekki bara?

Sem betur fer er ég ekki eini Íslendingurinn í skólanum, við erum alveg þó nokkur sem er æðislegt. Danskan gengur ágætlega en bekkjarsystkinin eru ótrúlega þægileg með að tala hægt, segja allt tvisvar og þýða það svo á dönsku. Fyrst skildi ég eiginlega ekkert hvað var í gangi í tímum en núna skil ég mest allt, þó svo að ég skilji það ekki orð fyrir orð. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að segja frá því sem við erum að gera í skólanum. Eitt það fyrsta sem gamall nemandi við skólann sagði við mig, var að hann hefði tiltölulega fljótt gefist upp á að segja öllum heima hvað væri í gangi í skólanum, ekki það að þetta sé einhverjir Frímúrarafundir, leiklistaræfingar geta bara verið svo stórfurðulegar, sérstaklega þegar maður reynir að segja frá þeim, þetta snýst svo mikið um að upplifa.

Mig vantar samt eitthvað að gera eftir skóla, alveg rosalega mikið. Það er ekki mikið heimanám (ennþá) þannig að eftir skóla er ég frekar eirðarlaus og, tjah, segjum það bara eins og það er, smá einmana. Ég er að spá í kaupa mér kort í ræktina og fara að hreyfa mig meira, jafnvel athuga hvort ég fæ vinnu og hver veit nema ég finni mitt innra skáld? Það getur sko allt gerst í Kaupmannahöfn!

Það er ekkert víst að ég bloggi oftar í Köben, það verður í það minnsta ekki reglulegt, svo að það þýðir ekkert að bíða spenntur eftir næsta bloggi, sú bið gæti orðið endalaus.

Ég læt fylgja smá símamyndir með svona í restina:
Þegar við Tryggvi hófum Interrail-ferðina okkar 
1. sept 2010 voru þessir á ráðhústorginu, þeir eru ennþá að!

Við Einar Helgi mættum Svartur á leik plaggati
inni á barklósetti... Ó elsku litla heimsfræga Ísland!


Það eru greinilega mótorhjólapartý á fleiri stöðum en
Ráðhústorgi á Akureyri, þarna voru þeir samt aðeins fleiri...